Árið er 2519
Plastminjasafn Íslands er samstarfsverkefni þriggja vöruhönnunarnema í námskeiðinu Stefnumót. Verkefnið var unnið út frá stað á Reykjanesi, Selatöngum, þar sem allt úir og grúir af plasti úr hafinu. Við ákváðum að stofna safn sem yrði til eftir 500 ár, settum okkur í spor plastminjafræðinga og settum upp sýningu.
Plast er orðið að fornminjum sem finnast á stöku stað eins og þegar við finnum litið brot af glervasa í kumli á Suðurlandi.
Fólk veit almennt ekki hvaða tilgangi hinir ýmsu plasthlutir gegndu og giskar á notin sem við höfðum fyrir þá. Plastminjafræðingar árið 2519 starfa á Plastminjasafni Íslands. Þar eru textar sem eru ritaðir í takt við þróun tungumálsins, ágiskanir á notkun plasthluta og umfjöllun um hluti sem við notum nú á hverjum degi en sagan mun sýna í öðru ljósi. Á safninu er hægt að nálgast eftirlíkingar af sýningarmunum, steyptum úr keramik.