Allsber er samstarfsverkefni þriggja námskvenna. Á heimasíðu verkefnisins má finna allsherjar rannsókn og pælingar, myndir, tilraunir og fleira sem kom út úr samstarfinu. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2019.
Allsber er allt sem snýr að berjum, að berjamó og bossum. Íslensk ber eru svo margt, þau eru menning, saga, næring, minningar, staðbundin og allstaðar. Berin verða oftast að sultu eða borðuð með rjóma og sykri. Þau eru úti í sveit, inni í borg og í hjörtum og mögum. Við förum saman, förum með ömmu og afa, fyllum týnur og fötur, keyrum með fenginn heim í eldhús þar sem þau eru hreinsuð og sultuð.
Að fara í berjamó og sitja í móanum tímunum saman í allskonar veðrum og týna ofan í fötu er hin mesta íhugun og getur hjálpað okkur að finna hugarró í sífellt háværari heimi. Á meðan Japanir fara í skógarbað til að hreinsa hugann og njóta náttúrunnar fara íslendingar í berjamó, enda er móinn okkur nálægari en þéttir skógar. Að finna krækilyngsangan og týna upp í sig eitt og eitt ber. Að verða berjablá um munninn og á puttunum, að sjá fötuna fyllast smátt og smátt en passa sig líka að hrúga ekki of þungu hlassi yfir neðstu berin.
Öll getum við lagt okkar af mörkum við að nýta berin, að njóta berjamós og verða í leiðinni pínulítið sjálfbærari. Leggja meiri áherslu á árstíðabundnar auðlindir og tengjast matnum okkar betur.